Entertainment

Þess vegna hættir giftum konum að langa í kynlíf samkvæmt kynlífssérfræðingnum„Ég hef áhyggjur af gagnkynhneigðum konum,“ skrifar ástralski kynlífssérfræðingurinn Nadia Bokody í nýlegum pistli. En þar vísar hún til þess hvað giftar gagnkynhneigðar konur hafa verið að greina frá undanfarið á samfélagsmiðlinum TikTok.

Þar hafa giftar konur verið að deila því hvað kemur þeim til og deilt svo myndböndum af mönnum sínum að gera einfalda hluti á borð við að brjóta saman föt, elda mat, skipta um bleyjur og álíka.

Nadia segir bæði myndböndin og athugasemdirnar við þau óhugnaleg. Þar séu konur að dásama menn fyrir einfalda hluti og óska þess að þeirra menn væru eins.

„Okkur konum er kennt að það eitt að hafa verið valin af karlmanni sé æðsta viðurkenning á tilveru okkar sem við getum fengið. Það að næla sér í karlmann sé eitthvað sem við eigum að sækjast eftir og það núlli út alla þá fórn og niðurlægingu sem kona þarf að taka á sig fyrir það eitt að geta kallað sig eiginkonu.

Hvað með það þó maðurinn þinn geti aldrei sett klósettsetuna niður og haldi enn að það sé krúttlegt að skilja eftir geislabaug af óhreinum nærbuxum á gólfinu í kringum óhreinatauskörfuna, þú átt samt eiginmann! Svo hvað með það þó þú þurfir að ganga honum stundum í móðurstað?“ 

Vopnavætt vanhæfi karlmanna

Nadia telur að konum sé kennt að það sé eðlilegt að karlmenn í hjónaböndum hagi sér eins og börn.

„Það er ekki eins og honum sé alveg sama. Hann myndi í alvörunni elska það að hjálpa þér með matarinnkaupin. En hann er bara maður. Hvernig á hann að vita hvaða mjólk hann á að kaupa eða klóra sig í gegnum það flókna verkefni að ákveða hvaða Tupperware kassi er bestur undir kúskúsið þegar hann kemur heim með allt?“ 

Nadia segir að þetta gerist ekki af tilviljun og seint verði sagt að konur njóti þess að vera í hlutverki móður gagnvart fullorðnum maka sínum.

„Þetta er afrakstur vísvitandi lærðar hegðunar – eitthvað sem sálfræðingar eru nú farnir að kalla „vopnavætt vanhæfi“.“

Nadia segir að í þessu felist að karlmenn geri sér upp vangetu til að skilja eða ljúka verkefni, en einnig að gera verkefni viljandi illa svo þeir verði ekki beðnir um að gera það aftur.

Afleiðing af þessu sé að konur finni fyrir streitu og streita geti haft bein áhrif á kynhvötina. Raunin sé enn sú að uppeldi barna og heimilisstörf falli frekar í hendur kvenna en karla í gagnkynjasamböndum. Síðan sé því bætt við að konur eigi líka að vera mæður eiginmanna sinna.

Tvöfalt líklegri til að missa áhuga á kynlífi

Nadia segir að rannsóknir hafi bent til þess að það hlutverk sem konum er ætlað að ganga í þegar þær byrja að búa með karlmönnum geti haft neikvæð áhrif á kynlíf þeirra. Ein rannsókn hafi meira að segja sýnt fram á að konur séu tvöfalt líklegri en menn til að missa áhuga á kynlífi þegar þær búa með karlkyns maka.

„Lestu aftur þessa seinustu setningu – Þegar þær búa með karlkyns maka,“ skrifar Nadia. „Það er næstum eins og það sé ekkert að kynhvöt kvenna yfir höfuð; raunverulegi vandinn er áhugaleysið sem mennirnir sem þær búa með sýna því að leggja sitt af mörkum í lífi þeirra.“

Nadia segir að það séu til tvær lausnir. Að konur hætti að ganga mökum sínum í móðurstað og fari að krefjast jafnrar þáttöku þeirra í sambandinu og heimilislífinu. Eða að hætta með þeim „því þú skrifaðir ekki undir neinn samning um að þú ætlaðir að gerast móðir fullorðins manns.“

„Og ef þú ert karlmaður sem er triggeraður núna þá er þessi pistill sérstaklega um þig. Sorry en það er komið upp um þig. Við vitum að þú skilur hvernig á að þrífa baðherbergið. Svo ef þú ert að vonast til þess að fá á broddinn í nánustu framtíð, gríptu þennan klósettburta og farðu að skrúbba – og almennilega í þetta skiptið.“ 

 

 

Source link

Leave a Reply

Your email address will not be published.