Entertainment

Sumir setja spurningamerki við bann Smith – Hvað með dónakallana?Eftir að Óskarsverðlaunaakademían setti Will Smith í tíu ára bann eftir kinnhestinn sem óþarfi er að rifja upp, hefur skapast fjörug umræða um réttmæti bannsins. Sumir telja það fullkomlega við hæfi en aðrir vilja meina að full langt hafi verið gengið. Í kjölfarið hafa netverjar rifjað upp hvernig akademían hefur tekið á málum kvikmyndaleikara og leikstjóra sem hafa verið ásakaðir um kynferðisbrot, kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu. 

Spacey, Allen og Gibson ekki refsað

Að minnsta kosti tuttugu karlmenn hafa stigið fram og sakað Kevin Spacey um kynferðisbrot á þeim sem ungum mönnum og eru enn að koma fram nýjar ásakanir. Dóttir leikstjórans Woody Allen, Dylan, hefur sakað hann um að hafa framið á henni kynferðisbrot sem barni og hefur hún stuðning bæði móður sinnar, Miu Farrow, og bróður, blaðamannsins Ronan Farrow.  Allen hefur ávallt vísað ásökunum hennar á bug. Hvorugur hefur þurft að sæta takmörkunum af hendi Akademíunnar. 

Mel Gibson hefur unnið tvö Óskarsverðlaun þrátt fyrir að hafa setið undir ásökunum um heimilisofbeldi auk þess sem andúð hans á gyðingum hefur ítrekað komið fram. Casey Afflick hefur verið sakaður um kynferðisáreiti af fjölda kvenna en fór samt sem áður heim með Óskarinn sem besti leikarinn árið 2017.

Fjögurra áratuga bið

Það vekur einnig athygli hversu fljót Akademían var að setja bannið á Will Smith. Hún setti einnig bann á Bill Cosby, Harvey Weinstein og Roman Polanski, sem allir hafa verið dæmdir fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot, en tók sér mun lengri tima í það. Leikstjórinn Polanski var til að mynda ekki settur í bann fyrr en árið 2018 eða rúmlega 40 árum eftir að hafa verið sakaður um að nauðga 13 ára stúlku. Eiginkonu Polanski, leikkonunni Emanuell Seigner, var boðið að taka sæti í Akademíunni í hans stað sem hún hafnaði.

Stuðningur Hollywood við Polanski hefur reyndar verið mikill í gegnum árin, Harrison Ford fór sérstaklega til Frakklands að afhenda honum Óskarinn og Meryl Streep heiðraði Polanski með standandi lófaklappi.

Óvelkomnir kossar látnir óáreittir

Á miðlum á við TikTok og Reddit hafa margir einnig furðað sig á að kinnhesturinn hafi þótt alvarlegra mál en kynferðisbrot, sérstaklega innan kvikmyndageirans sem fjöldaframleiðir ofbeldisefni. 

Í viðtalið við Buzzfeed segir Courtney Baker, doktor í afrísk-amerískum fræðum og prófessor í kvikmyndafræði, að hann teljið hörundslit Smith ekki hafa átt þátt í ákvörðuninni en raddir um slíkt hafa heyrst. Hann segir að það hafi skipt sköpum að atburðurinn átti sér stað fyrir framan myndavélarnar og það á hátíðinni sjálfri. En það hafa komið upp önnur atvik á hátíðinni sem hefur verið sjónvarpað í beinni útsendingu. Leikarinn Adrien Brody greip í Halle Berry og kyssti hana án hennar samþykkis þegar hann tók við Óskarnum árið 2003 og hefur Berry skýrt frá hversu óþægileg henni fannst uppákoman vera. 

Og ekki má gleyma Jim Carrey sem gagnrýndi Smith harðlega fyrir kinnhestinn. Gamanleikarinn greip í Aliciu Silverstone á MTV verðlaunahátíðnni árið 1997 og kyssti, augljóslega einnig án hennar samþykkis. Carrey var 35 ára en Alicia Silverstone aðeins 21 árs. 

Will Smith hefur beðið afsökunar á framferði sínu og segir bannið réttlætanlegt. Þrátt fyrir að mega ekki vera við Óskarinn næsta áratuginn er akademíunni frjálst að tilnefna hann til verðlauna. 

Source link

Leave a Reply

Your email address will not be published.