Entertainment

New York Times fjallar um Konráð Darra – „Ein magnaðasta upplifun ævi minnar“Þrátt fyrir að Konráð Darri Birgisson, sem gengur undir listamannanafninu Kid Krono, sé einungis 17 ára gamall þá hefur hann heldur betur látið til sín taka á stóra sviðinu í tónlistarheiminum. Í febrúar á þessu ári var það nefnilega ljóst að einn stærsti listamaður heims hafði notað tónlist eftir hann í nýju lagi.

Listamaðurinn sem um ræðir er Ye, sem flestir þekkja sem Kanye West, en hljóðbrot sem Konráð samdi var notað í lagi á plötunni Donda 2. Platan var einungis gerð aðgengileg fyrir þá sem höfðu fest kaup á græju sem kallast Stem Player en sú græja gerir notendanum kleift að breyta og bæta tónlistina í rauntíma.

„The rest is history“

DV tók viðtal við Konráð í febrúar síðastliðnum þar sem hann útskýrði hvernig það kom til að tónlist eftir hann endaði á plötu hjá svona stórum listamanni. „Ég er svokallaður „loop maker“ en það þýðir að ég geri laglínur fyrir lög. Ég byrjaði að byggja upp lista af tónlistarframleiðendum og svo sendi ég þeim þessar laglínur. Þegar tíminn leið var ég kominn með góð tengsl,“ sagði hann í samtali við DV.

„Ég sendi eina af þessum laglínum út, laglínu sem ég nefndi „On the Low“ og gerði með Gavin Hadley í mars árið 2021. Það er frekar fyndið að þetta var ein af fyrstu laglínunum sem ég gerði. Þegar ég var svo að senda laglínur út ákvað ég að endurhljóðblanda þessari laglínu og senda hana út aftur.“

Það var þá sem laglínan kom á borðið hjá tónlistarframleiðandanum JW Lucas en hann hefur unnið með nokkrum af stærstu stjörnum heims um þessar mundir. JW Lucas meðframleiddi til að mynda XO TOUR Llif3 eftir Lil Uzi Vert og What’s Poppin eftir Jack Harlow. „Hann vann í laglínunni, sendi hana á teymið hans Kanye og „the rest is history“,“ segir Konráð en laglínan hans endaði í laginu Louie Bags á plötunni.

Lesa meira: Svona endaði tónlist eftir 17 ára Íslending á nýjustu Kanye West plötunni

Magnaðasta upplifun ævinnar

Ljóst er að Konráð hefur nú vakið athygli fjölmiðla vestanhafs en The New York Times tók viðtal við hann á dögunum. Þar fer hann til að mynda yfir það hvernig honum leið þegar hann komst að því að Ye hafði notað laglínu eftir hann á plötunni sinni.

„Þetta var ein magnaðasta upplifun ævi minnar,“ segir hann.

Fjallað er um fjölskyldu Konráðs í viðtalinu. Móðir hans er Elísabet Davíðsdóttir, fyrirsæta sem gerðist síðar ljósmyndari, og stjúpfaðir hans er Michael Nevin en hann á listasafnið Journal Gallery í Tribeca hverfinu í New York. Konráð býr í New York ásamt móður sinni og stjúpföður en hann hefur búið í borginni alla sína ævi.

Undir lokin á viðtalinu við The New York Times ræðir Konráð um næstu skref sín. Þessa stundina vinnur hann að laglínum milli þess sem hann lærir í skólanum og sinnir heimavinnunni. Hann er núna að vinna í tónlist fyrir rapparana Da Baby, Toosii og Tyla Yaweh.

Hann segir í kjölfarið frá skoðun sinni á vinsælli tónlist í dag en hann vill ekki fylgja straumnum. „Mig langar virkilega að fara út fyrir kassann,“ segir hann.

Source link

Leave a Reply

Your email address will not be published.

close