Entertainment

Læknirinn sem plataði nasista – Bjargaði þúsundum mannslífa með útsjónarseminni


Eugene Lazowski er nafn sem kannski ekki margir þekkja en engu að síður er staðreyndin sú að þessi ungi Pólverji bjargaði lífi þúsunda gyðinga á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Tuskubútur á girðingu

Lazowski var 26 ára og hafði nýlokið læknanámið árið 1939 þegar að nasistar réðust inn í Pólland og hófu ofsóknir á hendur gyðingum. Sjálfur var hann ekki gyðingur en hafði alist upp í blönduðu hverfi kristinna og gyðinga.

Eugene Lazowski á árum seinni heimstyrjaldarinnar

Fljótlega eftir innrásina herjaði taugaveikisfaraldur á Pólland með þeim afleiðingum að um 750 manns létust á dag og gekk Lazowski til liðsinnis við Rauða krossinn í þeirri von um að verða að liði. Aftur á móti lá þung refsing við því að veita gyðingum nokkra læknisþjónustu. Lazowski vissi í hjarta sínu að hann gæti aldrei snúið baki við vinum sínum og nágrönnum, hann hafði farið með eið sem læknir um að sinna öllum, óháð kyni, kynþætti eða trú. Þrátt fyrir hættuna bjó Lazowski til kerfi sem gerði honum kleift að sinna gyðingum.

Ef að gyðingur þurfti á læknisaðstoð að halda var hengdur tuskubútur á girðingu hans og í skjóli nætur laumaðist hann inn í hverfi gyðinga til að sinna sjúklingnum. 

Datt niður á lausn

En Lazowski lét ekki staðar numið þar. Einn góðan veðurdag var ungur pólskur hermaður á stofunni hjá honum og grátbað ungi maðurinn lækninn um að hjálpa sér við að losna við að snúa aftur á vígstöðvarnar. Læknirinn setti höfuðið í bleyti og datt niður á lausn. Hann vissi að til var afbrigði af taugaveikisbakteríunni sem væri skaðlaust en sýndi aftur á móti jákvæða svörun við prófum um veikina. Lazowski sprautaði unga hermanninn með afbrigðinu með þeim afleiðingum að hann mældist sýktur og komst þar með hjá herskyldu.

Pestargemlingar

Lazowski í viðtali á eldri árum.

Lazowski vissi strax hvað skyldi gera næst og hóf að sprauta gyðinga með afbrigðinu af miklum móð allar nætur með þeim afleiðingum að leiðtogar nasista í Póllandi urðu fullvissir um að alvarlegur taugaveikisfaraldur geisaði meðal gyðinga. Lazowski gerði allt sitt til að ýta undir þá trú með því að skrifa þungorðar skýrslur um hættuna við að umgangast gyðinga. Hermennirnir sem handtóku gyðinga og fluttu þá í útrýmingarbúðirnar harðneituðu í kjölfarið að koma nálægt þessum pestargemlingum. Nasistaleiðtogar í Póllandi flýttu sér að einangra þau hverfi gyðinga þar sem ,,sóttin” geisaði,s kipuðu hermönnum að koma þar hvergi nálægt, og hröðuðu sér á brott. Lazowski tókst að sprauta þvílíkan fjölda fólks að tólf þorp og bæir til viðbótar voru yfirgefin af nasistum.

Talið er að þetta snilldarbragð Lazowski hafi bjargað átta þúsund manns frá hryllingi útrýmingarbúðanna. 

Þjóhetja

Lazowski hélt áfram störfum sínum sem læknir í Póllandi eftir að styrjöldinni lauk. Hann fékk styrk til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og flutti þangað með fjölskyldu sinni árið 1958. Lazowski varð prófessor í barnalækningum við Illinois háskóla í Chicago og skrifaði fjölda lærðra greina um barnalækningar. Hann skráði einnig endurminningar sínar og varð út margprentuð metsölubók. Lazowski sneri áratugum síðar í heimsókn til Póllands þar sem honum var fagnað sem þjóðhetju fyrir manngæsku sína og útsjónarsemi. Eugene Lazowski bjó síðustu árin hjá dóttur sinni í Oregon í Bandaríkjunum þar sem hann lést árið 2006.

Source link

Leave a Reply

Your email address will not be published.