Entertainment

Bubbi gagnrýndur fyrir viðtalið – „Hann hringsnýst eins og vindhani“Bubbi Morthens, einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, er nýjasti gestur Þorsteins V. Einarssonar í hlaðvarpinu Karlmennskan. „Bubbi Morthens hefur sannarlega sveiflast með tíðaranda okkar samfélags fram og aftur, verið gagnrýndur fyrir tækifærismennsku og fyrir að sýna af sér karlrembu en er einn af fáum sem þó gengst oft við því þegar hann ruglast, sem ég myndi telja sem gott fordæmi um jákvæða karlmennsku,“ segir Þorsteinn í upphafi þáttarins og spyr svo Bubba hvað honum finnst um kynninguna.

„Það eru þúsundir þarna sem hafa einhverja skoðun á mér og bara verði þeim að góðu. Ef þú getur ekki tekið gagnrýni, skilurðu mig? Stundum stígur maður einhvers staðar, í drullupoll og þá tekur maður bara löppina upp úr og hristir skóna,“ segir Bubbi.

Bubbi segir að það sé ekkert að því að viðurkenna mistök sín. „Ég held að það sé mjög eðlilegt og það er kannski það sem við mættum temja okkur meira og ástunda betur vegna þess að til að geta orðið betri útgáfa af sjálfum sér þá þarf miskunnarleysi og gríðarlega sjálfsvirðingu. Að vera manneskja það þýðir bara að vera ófullkominn.“

„Þá ertu bara drulluhali“

Í þættinum talar Bubbi mikið um samkennd, samúð og kærleik. Hann segir að þessi orð ættu að vera við innganginn á öllum opinberum stofnunum og í öllum skólastofum ættu þau að blasa við. „Vegna þess að það er lausn okkar allra við vandamálum okkar,“ segir hann.

Þá ræðir Bubbi einnig um það hvernig á að bregðast við þegar fólk stígur fram og gengst við ofbeldisbrotum. Sjálfur hefur hann verið gagnrýndur fyrir gerendameðvirkni í slíkum aðstæðum en hann segist hlæja að því.

„Vegna þess að ef þú getur ekki staðið með manni sem gengst við því að hafa gert eitthvað þá ertu bara drulluhali. Það þýðir ekki að ég samþykki verknaðinn hans, ég hringi í viðkomandi og segi honum að ganga við þessu, taka ábyrgð og gera eitthvað í sínum málum. Þegar ég sé að viðkomandi gerir það, fer að leita sér hjálpar, fer og vinnur ekki í einhverja daga, mánuðum saman þá hugsa ég bara: vel gert, vel gert,“ segir hann.

„Ef við viljum í alvörunni að einhver gangi við því sem hann gerir þá verður hann að fá tækifæri til þess.“

Þá segir hann að kærleikur og samkennd séu ekki gerendameðvirkni og að ef fólki finnist það þá sé það að rugla hugtökum. „Meðvirkni er að samþykkja, ef þú samþykkir hegðun einhvers sem beitir ofbeldi, það er meðvirkni. Það er vondur staður til að vera á en það er allt annað að gefa tækifæri til að vinna í sínum málum og laga sína hluti.“

„Hann hringsnýst eins og vindhani“

Bubbi talar um kynferðisofbeldið sem hann varð fyrir og hvernig hann vann úr því en hann mætti geranda sínum og fékk afsökunarbeiðni. „Niðurstaðan var sú að líf mitt breyttist varanlega við þetta samtal og að hann skyldi sitja á móti mér og viðurkenna. Ég gat skilað skömminni og ég labbaði út, algjörlega eins frjáls og ég hef nokkurn tímann verið í mínu lífi,“ segir hann í þættinum.

Kona nokkur sem hlustaði á þáttinn segir að henni hafi liðið skringilega eftir hlustunina en hún segir að það sé ekki allra að mæta gerendum sínum augnliti til augnlitis. „Ef ég til dæmis myndi taka upp á því að hitta manninn sem beitti mig heimilisofbeldi í mörg ár, þá hreinlega veit ég ekki hvort ég myndi frjósa, brotna eða hreinlega urlast úr reiði og ráðast á manninn,“ segir hún.

„Ég er mjög hrifin af þessu hlaðvarpi (Karlmennskan) og hef hlustað á hvern einasta þátt. Þetta viðtal var áhugavert, en á sama tíma mjög stuðandi fyrir mig sem fórnarlamb ofbeldis með áfallastreitu.“

Ólöf Tara Harðardóttir, þjálfari og ein af stjórnarkonum Öfga, gagnrýnir Bubba einnig fyrir viðtalið. „Hjálpi mér hvað þetta karlmennsku viðtal var erfitt hlustunar,“ segir hún í færslu sem hún birti á Twitter-síðu sinni í gær.

Þá segir maður nokkur að Bubbi hafi enga skoðun né hugsjón og að hann sé „eins og vindhani“.

Source link

Leave a Reply

Your email address will not be published.